*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 24. júní 2020 17:21

Gæðastimpill fyrir íslenska markaðinn

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn var í dag tekinn inn í vísitölu MSCI.

Alexander Giess
Íslenski hlutabréfamarkaðurinn er nú skráður sem vaxtarmarkaður í MSCI vísitölunni.
Haraldur Guðjónsson

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn var í dag tekinn inn í vísitölu MSCI. Sveinn Þórarinsson, hjá hagfræðideild Landsbankans, tekur tíðindunum fagnandi og segir fregnirnar vissan gæðastimpil. Mögulegt sé að erlendir sjóðsstjórar muni horfa meira til Íslands í kjölfar þessara fregna.

„Vísitalan er ekki byggð á neinum hagstærðum, þetta snýst frekur um það að hlutabréfamarkaðurinn sé stimplaðar sem skilvirkur,“ segir Sveinn.

Í raun eru það einungis tvö félög innan íslenska hlutabréfamarkaðarins sem samþykkt eru inn í vísitöluna, ekki var tekið fram hvaða félög það eru þó líklega sé um að ræða Marel og Arion banka. Þrátt fyrir þetta, hækkuðu 18 af þeim 20 félögum sem eru á íslenska hlutabréfamarkaðnum í viðskiptum dagsins. Bréf Heimavalla, sem munu vera skráð úr Kauphöll Íslands, og bréf Sýnar stóðu í stað.

Aðspurður segir Sveinn áhrif af innkomu íslenska markaðarins í vísitöluna vera nokkuð óljós. „Inn í vísitöluna munu væntanlega Marel og Arion koma inn. Ekki er ljóst hvaða áhrif þetta mun hafa á félögin þó svo að velta þeirra mun líklega aukast.“

Áhrif innkomunar á hin íslensku félögin eru enn óljósari en íslenski markaðurinn gæti þó orðið sjáanlegri en áður fyrr. „Þessi breyting er samt sem áður ákveðinn gæðastimpill fyrir íslenska markaðinn, og það gæti verið að erlendir sjóðsstjórar muni nú horfa til Íslands í meiri mæli,“ segir Sveinn.

Sveinn er ekki sá eini sem fagnar tíðindunum en Fossar markaðir hafa einnig sent frá sér tilkynningu vegna málsins.

„Um er að ræða breytingu sem hefur mikil áhrif til hins betra á íslenska markaðinn og hefur raunar verið vænst um nokkurt skeið. Skráning Íslands í flokk vaxtarmarkaða MSCI styður það starf sem við höfum unnið við markaðssetningu Íslands sem fjárfestingarkosts fyrir erlenda fjárfesta.

Með þessu fara vísitölusjóðir meðal annars að eiga viðskipti hérna, en fjárfestingarheimildir margra sjóða kveða á um að þeir megi ekki fjárfesta í fjármálagjörningum sem ekki eru hluti af alþjóðlegri vísitölu. Með breyttri skráningu Íslands hjá MSCI opnast því dyr fyrir marga erlenda sjóði,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða.