Fjármögnun Heimavalla hefur verið talsvert í sviðsljósinu frá skráningu félagsins á markað, en afskráningartilraun hóps hluthafa á síðasta ári stendur þar ótvírætt upp úr. Hún endaði með höfnun frá Kauphöllinni eftir að hafa verið samþykkt af ríflegum meirihluta hluthafa á aðalfundi.

Um síðastliðin áramót voru vegnir verðtryggðir meðalvextir félagsins 4,1%, og vegnir óverðtryggðir slétt 7%. Verðtryggðar skuldir eru þrír fjórðu hlutar heildarskulda, en óverðtryggðar fjórðungur. Tækist að endurfjármagna 8,5 milljarða af 29 milljarða heildarskuldum félagsins á 3% verðtryggðum vöxtum myndu meðalvextirnir lækka í 3,5% verðtryggt og 6,3% óverðtryggt.

„Félagið kom inn á markaðinn í Kauphöllina með ansi stórt endurfjármögnunarverkefni í höndunum, og það var ein af grunnforsendum skráningarinnar að hún myndi auðvelda það. Mönnum fannst þetta svo ekki alveg vera að ganga eftir á tímabili, og þá kom upp hugmyndin um afskráningu félagsins,“ segir Arnar Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimavalla, og vísar þar til kauptilboðs sem gert var öllum hluthöfum Heimavalla í upphafi síðasta árs, með því skilyrði að Kauphöllin samþykkti afskráningu félagsins.

Rúm 80% hluthafa samþykktu á aðalfundi að sækjast eftir afskráningu, en Kauphöllin hafnaði því á þeim forsendum að hagsmunir þeirra hluthafa sem eftir stóðu yrðu með því fyrir borð bornir.

„Ef þú ákveður að skrá þig í Kauphöllina ertu auðvitað að samþykkja að undirgangast hennar reglur,“ segir hann og bendir á að málið hafi ekki snúist um eiginlegan rekstur félagsins – aðeins eignarhaldið – og því haft lítil áhrif á starfsfólk þess. „Hluthafarnir hefðu getað höfðað dómsmál eða gert annað tilboð, en það kom ekki til þess og þar við sat. Eins og ég sé þetta er þessi afskráningarumræða því að baki.“

„Þú ert ekki bakari sem ákveður allt í einu að verða ísbúð“
Hann tekur ekki afstöðu sem slíka í málinu, en bendir á að skráningu í Kauphöll fylgi kostir til móts við kvaðirnar. „Svo maður taki nú aðeins upp hanskann fyrir [Kauphöllina] þá er ákveðið öryggi og ákveðin gæðavottun fólgin í því að vera skráð félag. Upplýsingaskyldan er ríkari, og þú ert með innviði í lagi.

Reksturinn fylgir fyrirfram útgefinni áætlun. Þú ert ekki bakari sem ákveður allt í einu að verða ísbúð. Það hefur reynst okkur vel að vera skráð og ég tel fyrirtæki almennt hafa gott af því. Auðvitað segjast allir stjórnendur alltaf vera með fókusinn á rekstrinum, en hér erum við á þriggja mánaða fresti að gera upp reksturinn, taka upp úr kassanum og kynna það útá við. Það er aðhald sem þú færð ekki sem óskráð félag.“

Nánar er rætt við Arnar Gauta í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .