Árni Björn Helgason stofnandi og eigandi umboðsskrifstofunnar Creative Artists Iceland, segir ferlið við að koma íslenskum leikurum á framfæri erlendis vera að mörgu leyti líkt því sem gerist hér heima.  „Það þarf að vera með þessa þrjá hluti á hreinu: myndefni, ljósmynd og ferilskrá. Ég er með aðgang að vef, sem vel flest verkefni í Evrópu fara í gegnum, með verkefnin sín en svo er mjög gott að ná tengslum við góðan umboðsmann erlendis því án þessara hluta gerist ekki mikið. Ég vinn þá með erlendum umboðsmönnum að því að koma viðkomandi leikara á framfæri. Þetta á til dæmis við um Salóme, Jóhannes Hauk, Baltasar Breka, Harald Ara, Óskar Þór Axelsson og fleiri. Ég hafði t.d. samband við Independantumboðsskrifstofuna þegar Óskar vildi fara út og gera eitthvað þar.

Það er gaman að segja frá því að hann er nýbúinn að leikstýra fjórum fyrstu þáttunum í seríu sem heitir  Sanctuary og er framleidd af  Yellow  Bird  en það er sami framleiðandi og gerði  Stieg Larsson-þríleikinn og  Wallanderþættina.“

Þarft þú að sækja öll hlutverk erlendis?

Það er mismunandi. Þegar leikari er kominn á sama stað og t.d. Jóhannes Haukur þá veit fólk í bransanum hver hann er. En þegar fólk kemst í prufur fyrir erlend verkefni þá er það oftast eitthvað sem ég sæki út. Ég set þá leikarann á ákveðið verkefni í gagnagrunni þar sem verið er að leita eftir fólki með ákveðna eiginleika. Ef ég tel viðkomandi hafa þann eiginleika þá set ég hann á verkefnið. Í kjölfarið skoða þeir sem eru að leita í hlutverkin og geta þá í kjölfarið leyfi til þess að senda video-prufu út.

Þetta er líka eitthvað sem hefur breyst mikið á síðustu árum. Það er ekkert svo langt síðan allir fengu snjallsíma í hendurnar og gátu þannig á einfaldan hátt sent inn vídeó-prufur. Áður þurfti að taka þetta upp á spólur og senda þær í pósti. Oftast þurfti fólk að fara út í fyrstu prufu. Ef viðkomandi var ekki staðsettur í þeirri borg hvort sem það var London eða Los Angeles þá var hann ekkert inni í myndinni.

Hefur aukin athygli á Íslandi almennt hjálpað til við að koma íslenskum leikurum á framfæri?

Alveg klárlega. En það sem hjálpar mest í okkar bransa er þetta góða efni sem er verið að gera hérna á Íslandi eins og Kona fer í stríð sem er frábær mynd og núna Lof mér að falla bara svo að mjög fátt sé nefnt þar sem Ísland sést með íslenskum leikurum. Svo er líka litið á leikara eins og Ólaf Darra, Ingvar E. og menn fara að velta því fyrir sér hvort það sé ekki eitthvað meira þarna. Úr Listaháskólanum koma svo ofboðslega góðir leikarar og það skapar grunn fyrir algjörlega vannýttan markað. Það virðist vera að hér á landi er ótrúlega mikið af hágæða leikurum og leikstjórum. Þetta er það sama og í tónlistinni en við vitum kannski ekkert alveg af hverju þetta er. En þetta góða efni sem er verið að gera hérna er það sem auglýsir okkur best.

Eins og risastórt partí

Creative  Artists Iceland  er þó ekki bara umboðsskrifstofa fyrir leikara og skemmtikrafta. Fyrirtækið er með þónokkuð af samfélagsmiðlastjörnum á sínum snærum og má þar nefna Sólrúnu Diego, Guðrúnu Veigu, Aron Mola og Camillu Rut. Árni er sjálfur umboðsmaður Sólrúnar en annars sjá þeir Nökkvi Fjalar Orrason, kenndur við Áttuna, og Gunnar Birgisson um aðra. „Þetta kom þannig til að Nökkvi fékk tækifæri á að koma í vídeó-prufur fyrir stóra erlenda mynd og þannig byrjuðum við að tala saman. Þetta var eitthvað sem þeir höfðu áhuga á og við settumst þá niður og ræddum hvernig hægt væri að miðla málum. Okkar stefna varðandi þennan þátt er að vinna fyrst og fremst fyrir einstaklinginn sjálfan. Við erum að hugsa fyrst og fremst um hag einstaklingsins en ekki hag vörunnar eða þess fyrirtækis sem er að auglýsa, heldur hvernig þessir hlutir geta unnið vel saman.

Hvert sérðu markaðssetningu á samfélagsmiðlum fara á næstu árum?

Ég tel að auglýsingastofur sérstaklega eiga eftir að átta sig í raun á áhrifamætti samfélagsmiðlafólks. Mér finnst þeir vera að spila mikið í vörn á gömlum hefðum og vinnubrögðum. Þeir græða ekki mikið á því að hafa samband við samfélagsmiðlafólk þar sem þá þarf ekki að búa til hefðbundið auglýsingaefni. Við heyrum mjög lítið í þeim hjá okkur. Menn horfa ennþá of mikið í að gera það sama aftur og aftur og birta í blöðum og línulegri dagskrá í stað þess að skoða meira vöruna og finna út hvar kynning á henni best heima. Það getur verið á öllum þessum stöðum en það verður í meira og meira mæli sem þetta færir sig inn á samfélagsmiðla eftir því sem fólkið færir sig enn meira inn á snjalltæki.

Ég segi að það að horfa daglega á samfélagsmiðlafólk er eins og að vera í partíi þar sem þú ert að segja vinum þínum frá því hvað tiltekin vara er góð eða virkaði fyrir þig en í stað þess að það séu 10 í þessu partíi þá eru 10- 20.000 manns í þessu partíi. Nándin er svo mikil. En við leggjum mikið upp úr trúverðugleika hjá okkar fólki og ráðleggjum okkar fólki að taka ekki að sér verkefni sem það hefur ekki trú á þar sem það skín alltaf í gegn og trúverðugleiki samfélagsmiðlarans minnkar.“

Nánar er rætt við Árna í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .