Skráð vopn hjá Landhelgisgæslunni eru samtals 212 en af þeim eru 120 ekki lengur í notkun. Skotvopnin eru geymd í viðurkenndum skotvopnageymslum Landhelgisgæslunnar. Auk skotvopnanna hefur Landhelgisgæslan yfir ráða handjárnum, piparúða og kylfum. Þetta kemur fram í skriflegu svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna.

„Áætlað var að vopnin frá Norðmönnum (100 stk.) kæmu í stað þeirra sem hafa verið aflögð og er því ekki um aukningu á vopnakostinum að ræða enda hluti þeirra vopna sem um ræðir ætlaður í varahluti og til viðgerða. Er um að ræða bæði nýrri og öruggari vopn sem henta mundu betur starfsemi Landhelgisgæslunnar," segir í svari ráðherra.

Forstjórinn ber ábyrgð á kaup á sölu vopna

Katrín spurði hver tæki ákvörðun um kaup á vopnabúnaði fyrir Landhelgisgæsluna og á hvaða forsendum slíkar ákvarðanir væru teknar.

Í svari ráðherra segir:  „Innkaup, sala, innflutningur og útflutningur vopna, sem og skotfæragerð, er háð samþykki forstjóra Landhelgisgæslunnar. Séraðgerða- og sprengjueyðingarsvið annast vörslu vopna Landhelgisgæslunnar og ber á þeim ábyrgð. Þar er til staðar þekking og reynsla varðandi vopnaburð. Starfsmenn sviðsins hafa í gegnum tíðina verið í mjög góðu samstarfi við systurstofnanir nágrannaþjóðanna og tekið þátt í sameiginlegri þjálfun og æfingum. Allir starfsmenn sviðsins hafa fengið þjálfun í Danmörku í sprengjueyðingu auk þjálfunar í vopnaakademíu danska land- og sjóhersins. Forsendur fyrir ákvörðun um endurnýjun vopna Landhelgisgæslunnar eru m.a. þær að um er að ræða mun öruggari, nýrri og betri vopn en það samansafn vopna sem Landhelgisgæslan hefur yfir að ráða, sbr. fylgiskjal. Þá er ákveðin hagræðing fólgin í því að samræma vopnaeign ríkisins frá sjónarmiðum bæði um öryggi og þjálfun en sérsveit ríkislögreglustjóra hefur notað þessa tegund vopna í mörg ár, eins og löggæsluaðilar víða um heim."

Óvirk vopn notuð sem leikmunir

Eins og áður sagði eru 120 af 212 vopnum Landhelgisgæslunnar ekki í notkun. Katrín spurði með hvaða hætti Gæslan fargaði úreltum eða ónýtum vopnum og hvort haldin væri skrá um förguð skotvopn þannig að afdrif þeirra væru ljós?
„Öll vopn sem Landhelgisgæslan er með í sinni vörslu eru skráð," segir í svari ráðherra. „Vopn voru lánuð til lögreglu árið 1986 þegar sérsveitin var stofnuð. Nokkur vopn sem hafa verið gerð óvirk hafa verið lánuð á söfn víðs vegar um landið, notuð sem leikmunir eða seld söfnurum. Ekki hefur verið farið í að eyða þessum gripum enda eru þeir orðnir safngripir. Þar af leiðandi hefur ekki verið talin þörf á setningu sérstakrar verklagsáætlunar um förgun. "

Fyrirspurnina og svarið og má lesa á vef Alþingis . Hér að neðan er listi yfir vopnaeign Landhelgisgæslunnar.

vopn gæslunnar
vopn gæslunnar