Mjög mikill munur til hins betra var á uppgjöri Marel á 2. ársfjórðungi 2015 miðað við sama fjórðung fyrir ári. Tekjur félagsins jukust úr 169,9 milljónir evrum í 218,3 milljónir evra og EBITDA úr 13 milljónum evra í 38,1 millj­ón evra. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, var að vonum ánægður við kynningu á uppgjörinu. „Þetta var frábær fyrri helmingur ársins fyrir Marel, með miklum innri vexti og styrkingu á rekstri.“

Ragnar Benediktsson hjá IFS greiningu segir að svo mikil tekjuaukning á milli þessara fjórðunga sé til marks um styrkleika hjá Marel. „Aðlöguð EBIT var hátt í 30 millj­ónir evra og einskiptiskostnaður vegna endurskipulagningar var hverfandi í þetta skiptið,“ segir Ragnar jafnframt. „Marel var með markaðinn með sér, það er að segja að uppsöfnuð fjárfestingarþörf hefur verið á helstu mörkuðum Marel og það hefur góð áhrif,“ bætir hann við.

„Markmið Marel var að ná 100 milljónum EBIT árið 2017. Af því gefnu að endurskipulagning klárist á árinu 2015 og markaðir ytra verði svipaðir er hægt að búast við því að EBIT nái að slefa í 100 milljónir á næstunni. Það verður mjög spennandi að sjá hvernig markaðurinn tekur í það ef markmið næst ári á undan áætlun,“ segir Ragnar.

Nánar er fjallað um málið í fylgiriti Viðskiptablaðsins, Úr kauphöllinni, sem kom út síðasta fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .