*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 13. júlí 2019 12:20

Gæti ekki átt meirihluta í nýju Wow

Oasis Aviation Group gæti ekki átt beinan meirihluta í endurreistu flugfélagi Wow air á íslensku flugrekstrarleyfi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Endurreist flugfélag Wow air, mætti ekki vera í meira en 49% eigu hluthafa utan Evrópska efnahagssvæðisins, sé ætlunin að vera rekið á íslensku flugrekstrarleyfi. Bent var á þetta í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær hefur Michele Ballarin og félag henni tengt, Oasis Aviation Group fest kaup á eignum þrotabús Wow air. Fulltrúar félagasins hafa fundað með Samgöngustofu um nýtt flugrekstrarleyfi. Þar sem Oasis er bandarískt félag þyrfti einstaklingur eða fyrirtæki innan EES svæðisins að vera skráð fyrir meirihluta hlutafjár í félaginu.

Takmörk á eignarhlut félaga utan EES á flugfélögum innan EES-svæðisins voru nokkuð til umræðu í vetur þegar Indigo Partners stefndi á að fjárfesta í Wow air, enda er Indigo Partners einnig bandarískt félag. Þá var gengið út frá því að Indigo myndi til að byrja með eiga 49% í Wow air.

Þó eru til leiðir til að hafa meiri ítök í flugfélögum innan 49% reglan segir til um. Indigo Partners hafði til að mynda yfirráð yfir um 66% hlutabréfa í hinu ungverska Wizz Air við skráningu þess á markað í gegnum nokkurs konar B-hluti sem ekki fylgdi atkvæðaréttur eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í vetur. József Váradi, forstjóri og stofnandi Wizz air, útskýrði fyrir The Times árið 2015 að fyrirkomulag eignarhaldsins væri „skothelt“ og ekki væri verið að fara í kringum reglurnar.

Vísir greindi frá því í gær að félagið hafi rætt við Isavia um að leigja flugskýli sem Wow hafi haft til umráða á Keflavíkurflugvelli, sem og við Airport Associates, sem var þjónustufyrirtæki Wow air á Keflavíkurflugvelli.