Alls munu 21 flugfélag bjóða upp á áætlunarferðir til og frá Keflavíkurflugvelli þessa sumaráætlun, en miðað við sætafjölda sem í boði eru gætu að hámarki 2,8 milljónir farþega komið til landsins á tímabilinu þessa sjö mánuði. Þetta kemur fram í frétt Túrista.is .

Í fyrra var sætafjöldinn um 2 milljónir, en aukningin nemur þá um 40%. Erlendum ferðamönnum fjölgaði um tæplega 30% á síðasta ári ef marka má talningu Ferðamálastofu. Þá jókst framboð á sætum í áætlunarflugi um nánast fjórðung, sem gefur kef til vill til kynna að framboð sé í takt við eftirspurn.

Ef hlutfall erlendra ferðamanna í þessum flugvélum sem bætast við áætlunarflugsflotann helst það sama og það var í fyrra gæti umferð ferðamanna um landið aukist um 300-400 þúsund manns. Ljóst er að þetta gæti haft veruleg jákvæð áhrif á efnahag þjóðarinnar.