Franska knattspyrnusambandið segir áform ríkisstjórnar Francois Hollande að láta nýjan 75% hátekjuskatt líka taka til knattspyrnufélaga geti gengið af franskri knattspyrnu dauðri. Nokkur frönsk lið hafa hótað því að hætta við knattspyrnuleiki í mótmælaskyni. Sagt er frá þessu á vefsíðu CNN.

Nýi 75% skatturinn verður lagður á fyrirtæki sem greiða einstökum starfsmönnum laun yfir einni milljón evra á ári. Frönsk knattspyrnufélög standa nú þegar höllum fæti fjárhagslega vegna dvínandi miðasölu og vegna þess að sjónvarpstekjur hafa farið minnkandi. Óttast félögin að skatturinn muni veikja enn frekar samkeppnisstöðu þeirra gagnvart knattspyrnuliðum í öðrum ríkjum.

Upphaflega átti skatturinn að leggjast á einstaklinga með háar tekjur, en nú leggst hann á fyrirtæki sem greiða há laun.