Fáist ekki undanþága frá gjaldeyrishöftum vegna 230 milljarða skuldabréfa Landsbankans og slitastjórnar gamla Landsbankans, LBI hf., sem leiði til þess að bankinn þurfi að hefja afborganir árið 2018 mun það draga verulega úr útlánagetu hans. Þetta segir Steinþór Pálsson í kvöldfréttum Stöðvar 2. Slitabú gamla Landsbankans hefur endurnýjað frest um lengingu í bréfunum til 17. nóvember næstkomandi, sem hangir á því að Seðlabankinn samþykki undanþágu frá gjaldeyrishöftum vegna afborgana. Fáist samþykki fyrir undanþágu mun bankinn ekki þurfa að greiða af skuldabréfunum fyrr en árið 2026.

„Ef það næst ekki í gegn gerir það að verkum að við þurfum að hlaupa hraðar," segir Steinþór. Þurfi Landsbankinn þá að draga úr útlánum sínum, meðal annars til sjávarútvegs, til að eiga fyrir afborgunum af skuldabréfum. Slíkt muni draga úr samkeppnishæfni Landsbankans á útlánamarkaði. „Það má búast við því að það skaði okkur og skaði hagkerfið í heild." Steinþór er ekki fullviss um að aðrir bankar geti annað eftirspurn eftir lánsfé, dragi úr framboði útlána hjá Landsbankanum.

Hagræðing fyrirhuguð hjá Landsbankanum

Þá kom einnig fram að 20 ma.kr. hagnaður Landsbankans á fyrstu níu mánuðum ársins væru að stóru leyti tilkominn vegna óreglulegra liða eins og eignasölu. Um 30-40% tekna bankans á árinu séu vegna þeirra. Því sé viðbúið að hagræða þurfi í rekstri bankans til að auka arðbærni hans.

Landsbankinn hefur ráðið ráðgjafarteymi frá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey sem er ætlað að leggja til hagræðingaraðgerðir hjá bankanum.