Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir að ekki séu haldbær rök fyrir því að starfsmenn hins opinbera njóti sérkjara sem almennur markaður njóti ekki.

Hann segir að í yfirstandandi kjaraviðræðum séu tækifæri til að jafnsetja réttindi, sem leiði til þess að ríkið geti frekar mætt kröfum BHM um ríflegar nafnlaunahækkanir og geri allan samanburð á kjörum á milli almenns og opinbers markaðar gagnsærri. „Ef við horfum heilt yfir kjaramálin, hvað varðar opinbera starfsmenn, þá er eitt stærsta vandamálið það að við erum að bera saman epli og appelsínur. Það gerir alla umræðu um þeirra kjör ógagnsærri og flóknari,“ segir Frosti.

Undir þetta tekur Páll Halldórsson, formaður BHM, að einhverju leyti. „Við viljum að lagaumhverfið verði eins og við værum með einn vinnumarkað,“ segir hann.

Frosti bendir á að samkvæmt greiningu Viðskiptaráðs gætu kröfur BHM og í kjölfarið BSRB, kostað ríkissjóð 51 milljarð króna árlega, komi ekki til eftirgjafar réttinda. Í greiningunni er miðað við um 30% nafnlaunahækkanir.

Umframréttindi opinberra starfsmanna
Umframréttindi opinberra starfsmanna
© Jóhannes Stefánsson (VB MYND/JS)

Rífleg réttindi

Viðskiptaráð hefur tekið saman hver séu réttindi opinberra starfsmanna umfram það sem gengur og gerist á almennum markaði. Í skoðun ráðsins kemur einnig fram að lífeyris-, orlofs-, og veikindaréttur opinberra starfsmanna sé öllu ríflegri en á almennum markaði, auk þess sem starfsöryggi sé meira. Þá fyrnist réttindi opinberra starfsmanna síður, auk þess sem þeir hafi aukin tækifæri til menntunar.

Veikindaréttur á vinnumarkaði
Veikindaréttur á vinnumarkaði
© Jóhannes Stefánsson (VB MYND/JS)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .