Í viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins segir Haraldur Þórðarson, forstjóra Fossa markaða, að aukin áhersla bankanna á einstaklingslán og minnkandi áhersla á fyrirtækjalán búi til hvata fyrir fyrirtæki til þess að leita nýrra fjármögnunarleiða. Þar sé fyrirtækjaskuldabréfamarkaður spennandi valkostur.

Hann segir líflegri fyrirtækjaskuldabréfamarkað jafnframt geta laðað erlenda fjárfesta til landsins í auknum mæli. „Frá árinu 2008 hefur virkasti hluti skuldabréfamarkaðarins á Íslandi verið með ríkisskuldabréf og svo í auknum mæli sértryggð bréf. Virkari fyrirtækjaskuldabréfamarkaður gæti verið áhugaverð þróun fyrir erlenda aðila sem fjárfesta í skuldabréfum, sem myndi svo breikka mögulegan hóp fjárfesta sem gætu komið að fjármögnun innlendra fyrirtækja," segir Haraldur, en hann kveðst finna fyrir miklum áhuga frá fjárfestum, innlendum sem erlendum, fyrir því að fá fleiri fjárfestingakosti á borðið.

Haraldur bendir á að áhugaverð þróun sé að eiga sér stað í átt að aukinni áherslu á sjálfbærni á markaði. „Þessi þróun er bara rétt að hefjast og fjárfestar eru í sí auknum mæli að horfa til þessara þátta. Þessi þróun hófst með grænu skuldabréfunum og hefur einnig verið að færast yfir í félagsleg skuldabréf og annarra skuldabréfa sem uppfylla alþjóðleg skilyrði með áherslu á umhverfismál, félagsmál og ábyrga stjórnun (ESG). Þessi þróun er rétt að byrja og ég trúi að hún muni styðja við vöxt fyrirtækjaskuldabréfamarkaðarins."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .