„Þetta mun alveg örugglega hafa einhver áhrif á rekstur flugvallanna. Það gefur augaleið að það má ekki mikið út af bregða til þess að hafa lamandi áhrif. Þessari græjur geta alltaf bilað,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ), í samtali við Morgunblaðið .

Þar kemur fram að yfirvofandi verkfall félagsmanna aðildarfélaga RSÍ, sem að óbreyttu mun hefjast 10. júní næstkomandi, gæti haft áhrif á flugsamgöngur. Meðal þeirra sem leggja niður störf eru rafvirkjar og rafeindavirkjar á Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli, en þeir sjá m.a. um viðhald á ljósabúnaði á flugvöllum og flugleiðsögubúnaði.

„Við erum að skoða þetta mál og þá hvort og hvernig það kann að hafa áhrif á flugsamgöngur,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við Morgunblaðið.