*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 1. apríl 2018 12:01

Gæti leitt til aukinnar áhættutöku

Skilgreining fyrirtækja sem kerfislega mikilvæg getur leitt til aukinnar áhættutöku þeirra að sögn framkvæmdastjóra fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans.

Ingvar H & Ísak R
Haraldur Guðjónsson

Landsbankinn benti á í skýrslu um ferðaþjónustuna í haust að vegna hárrar markaðshlutdeildar flugfélaganna mætti velta því upp hvort þau væru  kerfislega  mikilvæg fyrir efnahagslegan stöðugleika líkt og stóru viðskiptabankarnir teljast hvað varðar fjármálastöðugleika.

Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans segir að bankinn hafi ekki heimild til þess að skilgreina fyrirtæki sem kerfislega mikilvæg fyrirtæki með tilheyrandi eftirliti. „Nei, við höfum ekki þá heimild. Við höfum aðeins heimildir gagnvart eftirlitsskyldum aðilum, og stóru bankarnir þrír eru t.d. skilgreindir sem kerfislega mikilvægir aðilar á fjármálamarkaði,“ segir Harpa.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá gæti gjaldþrot annars af stóru íslensku flugfélögunum gæti kostað vel á annað hundrað milljarða í tapaðar útflutningstekjur og dregið verulega úr hagvexti hér á landi. Um fjórir af hverjum fimm farþegum sem fara um Keflavíkurflugvöll ferðast með  Wow  air  og  Icelandair. 

Aðspurð segir Harpa að það gæti verið skynsamlegt að koma á fót einhverju slíku utanumhaldi en það þurfi þá að ræða það á öðrum vettvangi. „Það er auðvitað eitthvað sem mætti skoða en það yrði að vera á vettvangi stjórnvalda. Það þyrfti þá líka að skilgreina í hvaða tilgangi það væri og hver ætti að bera þá ábyrgð. Á hinn bóginn ef maður skilgreinir eitthvert félag kerfislega mikilvægt þá er alltaf sú hætta á að félagið fari að taka aukna áhættu. Af því að þá fer félagið að telja að því verði bjargað ef erfiðleikar koma upp. Þetta er það sem í hagfræðinni kallastfreistnivandi,“ segir hún. Harpa segir jafnframt að skoða þurfi hvert félag sérstaklega í þessu samhengi og hvort önnur félög séu líkleg til þess að koma í stað þess félags sem er til skoðunar. „Það þarf auðvitað fyrst að fara yfir hvort eitthvert félag sé kerfislega mikilvægt.”