Innanríkisráðuneyti birti á dögunum drög að lagafrumvarpi sem réttarfarsnefnd samdi til breytinga á ýmsum lögum sem snerta réttarfar. Meðal breytinga sem eru boðaðar er breyting á ákvæði laga um meðferð einkamála sem kveður á um með hvaða hætti lögmenn stefndu sem taka til varna í einkamálum skuli skila greinargerð til dómara, hver efnistök hennar skulu vera og fleira.

Breytingin felur í sér að lögmenn stefndu í einkamálum geti lagt fram sérstaka greinargerð fyrir dóm sem fjallar eingöngu um formsatriði máls er varða frávísunarkröfu, sé slíkri kröfu fyrir að fara. Fram til þessa hafa þeir sem er stefnt í einkamálum þurft að leggja fram greinargerð sem tekur bæði á form- og efnisþáttum máls í einu lagi.

Tilgangur breytingarinnar er sá að draga úr tíma og kostnaði sem fer í að afla gagna og undirbúa málflutning um efnisatriði máls, sem sé tilgangslítið ef málinu er svo vísað frá dómi vegna galla á formhlið þess.

Arnar Þór Stefánsson hrl., segir erfitt að spá fyrir um hvort breytingin muni leiða til hagræðingar í störfum dómstóla og lögmanna. „Þetta gæti haft ýmiss konar áhrif, bæði til tafa og til að flýta fyrir í einhverjum tilfellum. Þetta er tvíeggja sverð,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .