Heildarfasteignamat á landinu öllu hækkar um 883 milljarða króna eða 13,8% frá og með byrjun árs 2018 samkvæmt nýju fasteignamati Þjóð­skrár Íslands. Um er að ræða mesta hækkun í fasteignamati milli ára í áratug, eða síðan milli 2007 og 2008 þegar heildarmat fasteigna hækkaði um 18,5%. Að öðru óbreyttu telja greiningaraðilar að hækkunin gæti haft neikvæð áhrif í hagkerfinu, með aukinni skattbyrði fyrir heimili, fyrirtæki og eigendur atvinnuhúsnæðis í landinu og mögulega hærra leiguverði.

Tilgangur fasteignamats er fyrst og fremst að skapa grundvöll fyrir álagningu opinberra gjalda, einkum fasteignaskatt og önnur fasteignagjöld. Skatturinn reiknast af fasteignamati húss og lóðar miðað við skráða notkun fasteignarinnar og skiptist hann í skatt á íbúðarhúsnæði (A-skatt), fastan skatt á opinberar byggingar (B-skatt) og skatt á atvinnuhúsnæði (C-skatt). Sveitarfélögin annast álagningu og innheimtu skattsins. Hækkun á fasteignamati jafngildir því skattahækkun fyrir eigendur fasteigna, jafnvel þó að álagningarprósentur sveitarfélaganna séu óbreyttar.

Samkvæmt nýja fasteignamatinu, sem miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2017, hækkar fasteignamat íbúðarhúsnæðis á landinu öllu um 15,5% eða 669 milljarða. Þessi mikla hækkun þarf ekki að koma á óvart, enda endurspeglar hún framboðsskortinn á fasteignamarkaði. Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 103 milljarða eða 9,1% milli ára. Mest hækkar fasteignamatið á höfuðborgarsvæðinu, eða um 14,5%. Fasteignamatið hækkar mest í Kjósarhreppi eða um 41,3%, um 27,5% í Norðurþingi, um 25,9% í Reykhólahreppi og 25,2% í Skorradalshreppi.

Leiguverð gæti hækkað

Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá ráðgjafafyrirtækinu Reykjavík Economics, segir að fasteignamatið gæti haft áhrif víðs vegar í hagkerfinu.

„Að óbreyttum fasteignasköttum munu tekjur sveitarfélaga hækka verulega í samræmi við hækkun fasteignamats,“ segir Magnús Árni, en fasteignaskattur er annar stærsti tekjustofn sveitarfélaga á eftir útsvari. Hámarksálagning skatts á íbúðarhúsnæði er 0,625% af fasteignamati og 1,65% fyrir skatt á atvinnuhúsnæði. „Álagning fasteignaskatta nam rúmlega 38,6 milljörðum króna á þessu ári en álagning er mjög mismunandi milli sveitarfélaga.“ Að óbreyttu mun upphæðin líklega hækka á næsta ári og gætu sveitarfélögin aukið útgjöld eða fjárfestingar vegna hærri tekna.

Hin hliðin af peningnum er að íslensk heimili muni finna fyrir aukinni skattbyrði, að sögn Konráðs S. Guðjónssonar, hagfræðings í Greiningardeild Arion banka. „Fyrir meðalheimili á höfuðborgarsvæðinu þar sem fasteignamat og lóðarmat er samtals 40 milljónir króna þýðir þetta tæplega 1.000 króna aukaútgjöld á mánuði. Fyrir heimilin þýðir hækkun fasteignamats því kostnaðarauki,“ segir Konráð. Kostnaðurinn eykst sérstaklega á þeim svæðum þar sem fasteignamatið hækkar einna mest, og verður einkum íþyngjandi fyrir tekjulága.

Þá nefnir Magnús Árni að hækkunin á fasteignamatinu gæti orðið baggi á atvinnulífinu.

„Hækkandi fasteignamat og aukin fasteignagjöld skapa auknar álögur á eigendur íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Leigusalar, til dæmis fasteignafélögin og leigufélögin, verða annaðhvort að mæta þessari þróun með því að hækka leiguverð eða lækka kostnað,“ segir Magnús Árni. Til að mynda eru fasteignagjöld stærsti útgjaldaliður fasteignafélaganna, sem eru með atvinnuhúsnæði í útleigu, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Það sem máli skiptir fyrir slík félög er að tekjur af útleigu fasteigna séu umfram vöxt í rekstrarkostnaði. Fljótt á litið hækkar fasteignamatið á atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu umfram vöxt í leigutekjum fasteignafélaganna, sem gæti dregið niður afkomu þeirra á næsta ári.

„Hærra leiguverð bitnar á einstaklingum en einnig á rekstri fyrirtækja, einkum minni fyrirtækja, sem leigja atvinnuhúsnæði. Þau munu þurfa að hagræða í rekstri eða velta þessu út í verðið á vörum og þjónustu. Það gæti skapað verðbólguþrýsting, en á móti vegur gengisstyrking krónunnar. Eins er þetta byrði á fyrirtækjum í eigin húsnæði, sem munu sjá húsnæðiskostnaðinn sinn hækka vegna aukinna fasteignagjalda, og gætu þau þurft að velta hækkuninni út í verð. Að öðru óbreyttu er þetta því byrði á atvinnulífið,“ segir Magnús Árni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .