„Við höfum lítið byggt í sex til sjö ár. Það hefur safnast upp mikil þörf. Ég held að þörfin sé til staðar og það er mikilvægt að við nálgumst svona verkefni út frá því,“ sagði Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, í Morgunútgáfunni í morgun.

Þar sagði hann að erfitt gæti reynst að manna byggingarframkvæmdir sem fram undan séu á höfuðborgarsvæðinu nema íslenskir iðnaðarmenn sem starfi í Noregi komi til baka. Þegar horft væri til lengri tíma væri verið að byggja 700 til 800 íbúðir í Reykjavík.

„Ég geri nú ráð fyrir að megnið af þeim sem eru í Noregi komi til baka. Þegar menn sjá að það er alvara í þessu og ef að starfskjörin fara að ná jafnvægi aftur hef ég auðvitað trú á því, en það mun ekki gerast 1, 2 og 3. Þá á ég við að ef menn sjá eitthvað fram í tímann að þá skapist starfsöryggi. Margir af þessum iðnaðarmönnum sem eru úti í Noregi eru ekki sestir þar að heldur ferðast þeir fram og til baka,“ sagði Þorbjörn.