„Ísland hefur skorað alþjóðasamfélagið á hólm og unnið." Með þessum orðum hefst Lex-dálkur á vef Financial Times um erlenda skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs sem lauk í dag. „Eftir að hafa verið komið á hnén árið 2008 þegar bankar landsins hrundu er landið við það að snúa aftur á fjármagnsmörkuðum og gefa út 1 milljarðs dala skuldabréf, hið fyrsta síðan 2006," segir síðan í dálkinum og haldið áfram að svo virðist sem fjárfestar treysti Íslendingum á ný. Jafnvel þótt skuldatryggingarálag landsins hafi hækkað um 20% í dag, upp í 264 punkta, sé það enn mun lægra en hjá Grikkjum, Írum eða Portúgölum.

Lex telur það kaldhæðnislegt í þessu samhengi að eigendur íslensku bankanna séu þeir einu, á meðal áðurnefndra ríkja, sem hafa þurft að taka skell. Jafnvel þótt þjóðin hafi hafnað að bæta Bretum og Hollendingum tjón vegna Icesave treysti fjárfestar ríkissjóði. Þetta gæti reynst öðrum þjóðum í svipaðri stöðu og Ísland lenti í hvatning. Hvað ef Írar fylgdu í kjölfarið? Af hverju ættu lánveitendur ekki að vera tilbúnir til þess að lána Írum fé ef þeir létu skuldir sínar falla, fyrst Íslendingar fengu lán, spyr Lex.