Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að skattar sem íslenska ríkið heimti af Glitni vegna gjaldársins 2010 hefðu verið ofteknir. Ástæðan er sú að afturvirkni laga sem bönnuðu fjármálafyrirtækjum í slitameðferð að samskatta sig með dótturfélögum sínum fyrir tekjuárið 2010 var talin ólögmæt af dóminum. Að óbreyttu þarf íslenska ríkið að endurgreiða þrotabúinu um sex milljarða króna.

Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir afgangi sem nemur 3.578 milljónum króna. Að því gefnu að fjárlög gefi raunsanna mynd af afkomu ríkissjóðs fyrir árið 2015, gæti dómur í máli Glitnis gegn ríkisskattstjóra gert út af við hallalaus fjárlög.

Sé miðað við að íslenska ríkið þurfi að endurgreiða Glitni sex milljarða króna á þessu ári verður halli á fjárlögum sem nemur rúmum 2.400 milljónum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .