Greiningardeild Arion banka, hefur tekið saman gífurlega áhugaverðar tölur um tónlistarhátíðina Iceland Airwaves, sem í gegnum árin hefur skipað sér veigamikinn sess í íslensku tónlistarflórunni. Á þessu ári gerir Greiningardeild Arion banka ráð fyrir því að erlendir Airwaves gestir standa undir 0,032% af landsframleiðslu Íslands á ársinu 2016, í skemmtilegri og áhugaverðri úttekt á viðburðinum.

Í greiningu Arion banka á þessum umfangsmikla atburð, sem hátíðin er, kemur meðal annars fram að í tölum ÚTON, kemur fram að bein velta Airwaves ferðamanna árið 2014 hafi verið 1.687 milljarðar á verðlagi október 2016. Ef að gert er ráð fyrir margföldunaráhrifum er talið að heildartekjurnar hafi numið þremur milljónum árið 2014.

0,032% af landsframleiðslu 2016

„Meðalneysla erlendra ferðamanna á hátíðinni 2014 var 28.355 kr. á hverja gistinótt (án flugs, gistingar og tónleikamiða) og 210.828 kr. yfir heildardvölina (verðlag okt. 2016), en hátíðargestir eyddu að jafnaði um 7,44 gistinóttum á landinu það árið, samanborið við um 6,6 nætur árin þrjú þar á undan. Taka þarf fram að útgjöld utan höfuðborgarsvæðisins er ekki meðtalinn i þeim tölum.

Ef miðað er við að neysla erlendra ferðamanna á hátíðinni í ár verði sambærileg og 2014 þá má reikna með því að erlendir Airwaves ferðamenn muni standa undir 1,2% af þjónustuútflutningi Íslands á fjórða fjórðungi 2016 og 0,3% af heildarþjónustuútflutningi ársins 2016. Miðað við spár okkar um framlag þjónustuútflutnings til landsframleiðslu, sem m.a. birt var í ferðaþjónustuúttekt Greiningardeildar, þá má afar gróflega reikna með að því að erlendir Airwaves gestir muni því standa undir 0,032% af landsframleiðslu ársins 2016. Hafa þarf í huga að gera ráð fyrir því að neysla á mann verði sú sama og 2014 er mjög hæpin forsenda þar sem gengi krónunnar hefur styrkst mikið síðan nóvember 2014,“ segir í nákvæmum útreikningum greiningardeildarinnar.

9.000 gestir

Þetta er í 18. skiptið sem að hátíðin er haldin, en hún var fyrst haldin, eins og frægt er í litlu flugskýli við Reykjavíkurflugvöll árið 1999. Hátíðinni hefur sannarlega vaxið fiskur um hrygg síðan þá.

Gert er ráð fyrir að 9.000 gestir sæki hátíðina, samanborið við 5.250 árið 2010 og 900 gesti árið 1999. Alls koma 220 hljómsveitir fram og stendur hátíðin yfir í fimm daga, frá miðvikudegi til sunnudags. Tónleikastaðirnir eru 14 en talsvert fleiri ef off venue tónleikar eru teknir með.

Greiningardeildin gerir ráð fyrir því að af þeim 9.000 manns sem sækja hátíðina heim séu 5.000 þeirra erlendir. Hlutfall erlendra gesta verður því líklega um 55,5%. „Miðað við spá okkar um fjölgun ferðamanna 2016 má reikna með því að Airwaves ferðamenn muni standa undir 4,6% af heildar ferðamönnum í nóvember á þessu ári, samanborið við 6,7% árið áður og 8,3% árið þar áður. Lækkun hlutfallsins skýrist einfaldlega af þeirri þróun að fjöldi tónleikagesta hefur haldist í kringum 9.000 undanfarin þrjú ár (að 2016 meðtöldu) á meðan að ferðamönnum til landsins yfir tónleikamánuðinn hefur fjölgað gífurlega á sama tíma,“ segir í texta Greiningardeildar Arion banka.

Solstice orðin „vinsælust?“

Greiningardeild Arion banka bendir þó á þá staðreynd að Secret Solstice hátíðin hafi hins vegar haslað sér völl og sé nú vinsælasta tónlistarhátíðin, ef miðað er við leitarniðurstöður á Google. 15.000 manns sóttu Secret Solstice á þessu ári, þar sem að fólk gat hlýtt á tóna hljómsveita á borð við Radiohead og Die Antwoord.