Á tæpu ári hefur verðbólga hjaðnað hratt og er nú aðeins 1,8% á ársgrundvelli. Undanfarna átta mánuði hefur hún verið undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans sem er lengsta samfellda tímabil verðstöðugleika frá árinu 2003. Þessi hraða hjöðnun verðbólgu ber árangri síðustu kjarasamninga glöggt vitni. Þetta segir í nýrri umfjöllun Samtaka atvinnulífsins um verðstöðugleika á markaði.

Samtökin segja hins vegar að þrátt fyrir góðan árangur á vinnumarkaði sé staðan tvísýn. Að óbreyttu gæti stefnt í víðtækari verkföll á almennum vinnumarkaði en um áratugaskeið. Ástæður þess megi rekja til kjarasamninga opinberra starfsmanna, samskiptaleysis stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar og ósamstöðu um áherslur í efnahagsmálum. Í hnotskurn sé verkalýðshreyfingin á almennum vinnumarkaði að undirbúa aðgerðir vegna trúnaðarbrests við ríkisstjórnina.

Samtökin taka undir gagnrýni á ófullnægjandi samráð ríkisstjórnarinnar um mikilvæg mál sem snúa að vinnumarkaðnum og segja að reiði innan verkalýðsfélaga á almennum vinnumarkaði sé skiljanleg vegna mikilla launahækkana á opinberum vinnumarkaði. Telja þau þó að ábyrgð á verðstöðugleika verði aldrei borin af almennum vinnumarkaði einum og stéttarfélög opinberra starfsmanna verði einnig að bera ábyrgð. Sagan kenni að það sé mun auðveldara að kveikja verðbólgubálið en að ráða niðurlögum þess.

Lesa má umfjöllun Samtaka atvinnulífsins hér .