Breska sveitarfélagið Somerset gæti tapað allt að 12 milljónum punda, jafnvirði tæplega 2,3 milljörðum króna, vegna falls íslensku bankanna. Alls átti sveitarfélagið nærri 25 milljónir punda á innstæðureikningum íslensku bankanna við fall þeirra í október 2008.

Meirihluti stjórnar í Somerset segir að 12 milljóna punda tap sé versta mögulega útkoman fyrir sveitarfélagið. Vonir standa til að aðeins þurfi að afskrifa 2,1 milljón punda. Fjallað er um málið á vef BBC.

Alls hafa 5 milljónir punda fengist endurgreiddar og von er á næstu greiðslu í apríl. Lausafé sveitarfélagsins var á innstæðureikningum hjá öllum stóru bönkunum, Glitni, Landsbankanum og Singer & Friedlander banka Kaupþings. Nú er beðið eftir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um hvort krafa sveitarfélagsins sé forgangskrafa í þrotabú bankanna eða almenn krafa.

Somerset er ekki eina breska sveitarfélagið sem reynir að sækja rétt sinn gegn Landsbankanum og Glitni. Auk breskra sveitarfélaga hafa háskólar og stofnanir höfðað mál hér á landi.

Segir í frétt BBC að von sé á niðurstöðu dómstóla á næstu mánuðum.