Mervyn King, bankastjóri Englandsbanka og fyrrverandi prófessor í hagfræði við London School of Economics, sagðist í gær óttast að fjármálakreppan sem nú skekur heiminn gæti orðið sú versta sem Bretland hefur orðið fyrir frá upphafi vega. Þessi orð lét King falla þegar hann kynnti 75 milljarða punda lausafjárinnspýtingu Englandsbanka inn í breska fjármálakerfið.

„Þetta er að minnsta kosti dýpsta lægðin sem við höfum séð síðan á þriðja áratugnum, ef ekki sú versta frá upphafi," sagði King en athygli vekur að George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, sem fram til þess að hefur gagnrýnt lausafjárinnspýtingar í fjármálakerfið sagði þessa innspýtingu vera nauðsynlega. Sömuleiðis tók hann undir orð King um alvarleika kreppunnar.

Þetta er fyrsta lausafjárinnspýtingin í breska hagkerfið síðan ríkissjórn David Cameron tók við völdum í maí 2010 enda hefur aðhald í ríkisrekstrinum verið leiðarljós Cameron og Osborne. Í ríkisstjórnartíð Gordon Brown dældi Englandsbanki inn 200 milljörðum punda í hagkerfið.