Heildarútgjöld erlendra ferðamanna hækka um tæp 2% ef virðisaukaskattur á gistingu verður hækkaður. Nú gæti verið heppilegur tími til að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu eftir því sem fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar um áhrif þess að hækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu.

Í skýrslunni kemur enn fremur fram að hækkunin skili ríkissjóði 3,2-3,4 milljörðum króna í viðbótartekjur. Þar segir að greining á þróun verðs á gistingu bendir til þess að mestur hluti virðisaukaskattslækkunar úr 14% í 7% árið 2007  hafi fallið gistihúsum í skaut, en verð á gistingu lítt lækkað. Því má líta á lækkunina sem niðurgreiðslur eða styrk til atvinnugreinarinnar. Þar af er áætlað að skatttekjur vegna útlendinga sem gista á íslenskum hótelum og öðrum gististöðum aukist um 2,4-2,6 milljarða kr.