Í nýlegu máli yfirskattanefndar var staðfest að tap svokallaðra CFC-félaga (Controlled Foreign Company / erlend fyrirtæki í lágskattaríkjum) væri frádráttarbært hjá íslenskum eigendum þess, að minnsta kosti til ársins 2013.

Í grein á vefsíðu Nordik lögfræðiþjónustu er fjallað um málið, en þar segir að á árinu 2009 voru sett lög hér á landi um CFC-félög sem kváðu á um að greiða skyldi tekjuskatt hér á landi af hagnaði félags, sem íslenskur skattaðili á og heimilisfast er í lágskattaríki, óháð því hvort hagnaði félagsins hefði verið ráðstafað til hins íslenska eiganda.

Samkvæmt lögunum var tap hins erlenda CFC-félags aðeins frádráttarbært að skattaðili geti, að ósk skattyfirvalda, lagt fram fullnægjandi gögn er liggja að baki útreikningi á tapi. Árið 2013 var þessu ákvæði laganna breytt á þann veg að tap sem myndast hjá hinu erlenda CFC-félagi væri aðeins frádráttarbært hjá hinu erlenda félagi.

Í úrskurði yfirskattanefndar segir hins vegar að fyrir lagabreytinguna 2013 hafi í reynd verið heimilt að draga tap af rekstri hins erlenda félags frá rekstrartekjum íslensks móðurfélags.

Í greininni segir að niðurstaðan veki upp spurningu um áhrif úrskurðarins til næstu tíu ára, enda megi ætla að tapið sem heimilt var að flytja inn í íslensk skattskil fram til lagabreytingarinnar árið 2013, megi nýta hér á landi í 10 ár frá því að það myndaðist. Þannig kunni þeir sem áttu félög á lágskattasvæðum átt inni yfirfæranlegt tap.