*

mánudagur, 27. janúar 2020
Innlent 19. júlí 2019 14:44

Gætu átt von á milljarða bótum

Icelandair gæti átt von á tug milljóna dollara bótum frá Boeing vegna kyrrsetningar 737 Max vélanna.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing greindi frá því í gær að kostnaður vegna kyrrsetningar 737 Max véla félagsins myndi nema um 5 milljörðum dollara á öðrum ársfjórðungi. Eins og fram hefur komið gerði sumaráætlun Icelandair ráð fyrir því að 7 Max 8 og tvær Max 9 vélar yrðu í flota félagsins en kyrrsetningin hefur haft töluverð áhrif og þurfti Icelandair meðal annars þurft að breyta flugáætlun sinni út október. 

Í frétt Barron's um málið kemur fram að samtals 387 Max vélar séu nú kyrrsettar auk þess sem eftir á að afhenda fjölda annara véla. Miðað við' upphæðina sem Boeing hefur gjaldfært nemur hún um rúmlega 12 milljón dollurum á hverja flugvél sem hefur nú þegar verið afhent eða um 1,5 milljörðum króna. Þó útreikningarnir séu í raun getgátur einar getur þetta þýtt að Icelandair geti átt von á skaðabótum upp á 72 milljónir dollara eða um 9 milljörðum íslenskra króna fyrir þær 6 vélar sem félagið hafði fengið afhentar áður en kyrrsetningin kom til sögunnar. 

Sé upphæðin reiknuð bæði á afhentar vélar en einnig þær sem afhenta átti á meðan kyrrsetningin hefur staðið yfir nemur upphæðin 7 milljónum dollara eða um 875 milljónum króna að mati Barron's. Það myndi þýða 63 milljónir dollara fyrir allar 9 Max vélarnar sem Icelandair bjóst við í flugáætlun sinni fyrir sumarið. 

Það skal þó tekið fram að eingöngu er um gróft mat að ræða og félagið hefur ekki gefið út að kostnaðurinn felist í því að flugfélögum verði greiddar þessar skaðabætur á einu bretti og í lausafé. Líklegra er talið að greiðslur vegna kyrrsetningarinnar muni dreifast yfir lengri tíma og gætu einnig orðið í formi afsláttar eða annara betri kjara.  

Stikkorð: Boeing Icelandair