Mögulegt er að íslenska ríkið muni óska eftir undanþágu frá hefðbundnum þröskuldi almennra fjárfesta við skráningu Íslandsbanka á markað. Slík undanþága yrði þá sett fram í ljósi stærðar hans. Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinargerð fjármála- og efnahagsráðherra um ráðgerða sölumeðferð á hlutum í bankanum.

Nýverið samþykkti bankasýsla ríkisins að leggja til að ríkið myndi minnka við sig í Íslandsbanka og stefnt að því að söluferlið fari á fullt strax á fyrri helmingi næsta árs. Stefnt er að því að skrá bankann á markað og nýta skráninguna til að selja hlut ríkisins smám saman. Fyrirhugað sölumagn og áætlað verðbil á hlut ekki ákveðið og mun ekki liggja fyrir fyrr en skráningarlýsing verður birt.

Ekki hefur verið ákveðið hve stór hlutur verður seldur en í greinargerðinni segir að almennt sé miðað við að hlutur almennra fjárfesta, við skráningu á skipulegan markað, verði fjórðungur hið minnsta. Mögulegt sé að ríkið muni sækja um undanþágu frá því skilyrði í ljósi þess hve stór bankinn er. Greinargerðin nú var send Seðlabanka Ísland auk fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar þingsins. Þegar umsagnir þeirra liggja fyrir, umsagnarfrestur rennur út um miðjan janúar, er stefnt að því að setja söluferlið af stað.

Arðsemi bankans var 4,8% á síðasta ári og lækkaði niður í 2,4% á fyrstu níu mánuðum ársins. Á þriðja ársfjórðungi var hún þó 7,4%.

„Til að fá næga athygli langtímafjárfesta og hámarka endurheimtur er mikilvægt að stjórnendur Íslandsbanka setji fram trúverðuga áætlun um hvernig bankinn muni byggja á batnandi arðsemi, eins og niðurstöður þriðja ársfjórðungs gefa til kynna, þannig að viðunandi söluandvirði fáist fyrir eignarhlut ríkisins í bankanum,“ segir í greinargerðinni. Hana má lesa í heild sinni hér .