Samanlagt geta bónusgreiðslur vegna væntanlegrar sölu á Lykli fjármögnun hf. til starfsmanna Klakka, sem á félagið 100%, numið 550 milljónum krónna, sem og vegna annarra félaga sem Klakki, áður Exista, hefur selt á undanförnum árum að því er fram kemur í Fréttablaðinu .

Meðal eignarhluta sem hafa verið seldir má nefna hluti í VÍS, Símanum, Kviku og Bakkavör, en félagið var yfirtekið af kröfuhöfum í árslok 2010. Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að ákveðið hefði verið að hefja opið söluferli á Lykli en norræni fjárfestingarbankinn Beringer Finance mun hafa umsjóm með ferlinu.

Hluthafafundur félagsins samþykkti kaupaukakerfið á mánudag, en það nær til þriggja starfsmanna félagsins og sex manna stjórnar þess, en í henni eiga sæti fjórir Íslendingar. Þar á meðal Kristján B. Thorlacius hæstaréttarlögmaður sem íslenskir lífeyrissjóðir hafa stutt til setu í stjórninni, en samanlagt eiga þeir um 6% hlut.

Eru það þá helst LSR, Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Birta, en sjóðirnir sendu ekki sérstakan fulltrúa á fundinn þar sem atkvæðagreiðslan fór fram að því er Fréttablaðið greinir frá.

Stærsti eigandi Klakka er vogunarsjóðurin Davidson, en stjórnarformaður félagsins er Pétur J. Eiríksson, en einnig sitja þeir Steinn Logi Björnsson fyrrverandi forstjóri Skipta og Húsasmiðjunnar og Gunnar Þór Þórarinsson, lögmaður hjá Logos í stjórninni. Forstjóri Klakka er Magnús Scheving Thorsteinsson.

Mögulegar heildarbónusgreiðslur gætu numið allt að 4,42 milljónum evra, eða sem nemur 550 milljónum króna, ef allar forsendur ganga eftir, en þær myndu skiptast þannig að 45% færu til stjórnarmanna en 55% til stjórnar, þannig að stjórnendurnir gætu fengið 60 milljónir á mann.