Niðurstaða nýrra rannsókna gefa vísbendingar um að efni sem blágrænþörungar í Bláa Lóninu framleiða hafi áhrif á ónæmiskerfið og eigi sinn þátt í þeim bata sem sórasjúklingar fá við böðun í lóninu. Áframhaldandi rannsóknir gætu leitt af sér lyf sem mætti nýta til meðhöndlunar á sóra hjá sjúklingum um allan heim.

Sórasjúklingar uppgötvuðu lækningamátt Bláa Lónsins skömmu eftir að lónið myndaðist og hafa jákvæð áhrif böðunar í lóninu verið staðfest í klínískum rannsóknum. Enn fremur hefur verið sýnt fram á að böðun í lóninu samhliða ljósameðferð sé árangursríkari en ljósameðferð ein og sér. Þrátt fyrir vinsældir lónsins er það ekki að fullu skýrt með hvaða hætti það hefur áhrif á sóra.

„Spurningin hefur verið hvort að í lóninu sé virkt efni gegn sjúkdómnum, eða hvort það sé upplifunin og afslöppunin eða eitthvað enn annað sem útskýri batann sem fæst,“ segir Ása Bryndís Guðmundsdóttir, lyfjafræðingur sem síðustu ár hefur rannsakað áhrif blágrænþörunga í Bláa Lóninu á frumur sem taka þátt í meingerð sóra. Ása Bryndís varði á dögunum doktorsverkefni sitt „Áhrif utanfrumufjölsykra Cyanobacterium aponinum úr Bláa Lóninu á ónæmissvör in vitro“ við Læknadeild Háskóla Íslands. Cyanobacterium aponinum er blágrænþörungur sem er ríkjandi lífvera í jarðsjó Bláa Lónsins sem framleiðir utanfrumufjölsykru (EPS-Ca) sem hann seytir í lónið. Tilgáta Ásu Bryndísar var að EPS-Ca hefði áhrif á ónæmiskerfið og miðlaði þannig þeim bata sem sórasjúklingar fá við böðun í lóninu.

Tilgangur verkefnisins var að kanna verkun og verkunarmáta EPS-Ca á frumur sem taka þátt í meingerð sóra, en einkenni sóra stafa m.a. af því hversu ónæmisfrumur líkamans bregðast harkalega við umhverfisþáttum. Þetta viðbragð leiðir til umtalsverðrar röskunar á samskiptum frumna líkamans, sérstaklega ónæmisfrumna og húðfrumna, sem aftur leiðir til mikillar bólgumyndunar og offjölgunar húðfrumna.

Rannsóknin fór þannig fram að utanfrumufjölsykran EPS-Ca var einangruð úr C. aponinum rækt Bláa Lónsins. Ónæmisfrumur voru meðhöndlaðar til að líkja eftir meingerð sóra, og áhrif fjölsykrunnar, EPS-Ca, á hegðun og boðefnaframleiðslu ónæmisfrumnanna síðan metin og mæld. Húðfrumur voru örvaðar með bólguvökum og þannig líkt í tilraunaglasi eftir meinþróun sóra og þær svo meðhöndlaðar með EPS-Ca.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að EPS-Ca breytir svipgerð angafrumna, sem eru í fremstu víglínu ónæmiskerfisins, og breytir svipgerð þeirra í bæli-angafrumur. Þær stuðla síðan að sérhæfingu T frumna, sem er annar hópur ónæmisfrumna, yfir í T bælifrumur. Þar sem bólguörvandi T frumur eru helstu skaðvaldarnir í sóra má álykta að slík svipgerðarbeyting í átt til bælingar geti stuðlað að því að ónæmiskerfið sem er í ofvirkt í sóraskellum róist. Einnig dregur EPS-Ca úr boðefnaseytun og ræsingu (virkjun) örvaðra T frumna. EPS-Ca gæti því dregið úr ræsingu og fjölda T frumna sem halda til í húðinni. Loks var sýnt fram á að EPS-Ca minnkaði framleiðslu húðfrumna á efnatogum sem laða virkjaðar T frumur til húðarinnar.

Fjölsykran EPS-Ca sem myndast í Bláa Lóninu virðist því hafa áhrif í hagstæða átt á allar lykilfrumurnar sem taka þátt í meingerð sóra. Niðurstöðurnar benda því til þess að EPS-Ca geti átt veigamikinn þátt í þeim bata sem sórasjúklingar fá við böðun í lóninu og leiða jafnframt í ljós á hvern hátt þeim áhrifum er  mögulega miðlað.

„Það verður virkilega áhugavert að halda þessari rannsókn áfram. Hérna er á ferðinni efni sem virðist hafa mikinn möguleika á að hafa bætandi áhrif á sóra, og gæti leitt af sér lyf sem nýta mætti til meðhöndlunar á sóra hjá sjúklingum um allan heim,“ segir Ása Bryndís.

Ása Brynjólfsdóttir, rannsóknar- og þróunarstjóri Bláa Lónsins, segir að niðurstöður rannsóknarinnar opni á ný tækifæri og nýjar víddir í rannsóknar- og þróunarstarfi fyrirtækisins. „Vonandi er þetta upphafið í þróun nýrra meðferðaúrræða fyrir sórasjúklinga,“ segir Ása.

Rannsóknin var styrkt af Tækniþróunarsjóði. Umsjónarkennari Ásu Bryndísar var dr. Jóna Freysdóttir, prófessor við Læknadeild, og leiðbeinandi var dr. Ingibjörg Harðardóttir, prófessor við Læknadeild.