Þótt  ekkert kveði á um það í lögum að Fjármálaeftirlitið (FME) eigi að hafa eftirlit með verðtryggðum lánum þá er það mögulegt á forsendum eftirlits um ,,heilbrigða viðskiptarhætti.“  FME telur sig þó ekki geta leyst úr ágreiningi á milli viðskiptaaðila, þ.e. á milli lánveitanda og  lántakenda.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í svari Sigurðar Valgeirssonar, upplýsingafulltrúa FME, við fyrirspurn netmiðilsins Spyr.is um það hvaða hlutverki FME gegni við eftirlit með útreikningum á greiðslum og höfuðstól verðtryggðra lána.

Spurningin var í heild sinni þessi:

Óskað er eftir að birtur verði staðall Seðlabanka Íslands á jöfnuformi um útreikninga á greiðslum og

Hvaða hlutverki gegnir Fjármálaeftirlitið við eftirlit með útreikningum á greiðslum og höfuðstól verðtryggðra lána?

Svar FME

„Fjármálaeftirlitið hefur því hlutverki að gegna á fjármálamarkaði að hafa eftirlit með því að eftirlitsskyldir aðilar fari eftir þeim lögum og reglum sem um starfsemina gilda auk þess að þau starfi í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti. Í sumum tilvikum er með nokkuð nákvæmum hætti lýst í hverju eftirlitið felst en í öðrum tilvikum eru eingöngu almenn markmiðsákvæði.

Ekki er sérstaklega kveðið á það í lögum að Fjármálaeftirlitið skuli hafa eftirlit með útreikningum á greiðslum og höfuðstól verðtryggðra lána. Að slepptu lögboðnu hlutverki annarra stjórnvalda þá gæti Fjármálaeftirlitið átt aðkomu að slíku eftirliti á grundvelli eðlilegra og heilbrigðra viðskiptahátta. Það fer því allt eftir atvikum og aðstæðum hverju sinni hvaða stjórnvald er bært í málum varðandi verðtryggð lán.“

Í svarinu er tekið fram að FME hefur ekki heimild til að skera úr ágreiningi á milli eftirlitsskyldra aðila, t.d. lánveitenda og viðskiptavina þeirra. Hins vegar er bent á að starfrækt er úrskurðarnefnd sem fjallar um slík ágreiningsmál, Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.