*

laugardagur, 11. júlí 2020
Innlent 4. júní 2020 06:33

Gætu orðið af 27 milljörðum

Pearl Abyss býst ekki við að þurfa að greiða 13,5 milljarða árangurstengda greiðslu til fyrri eigenda CCP. Novator á mikið undir.

Ingvar Haraldsson
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.
Aðsend mynd

Endanlegt kaupverð suður-kóreska leikjafyrirtækisins Pearl Abyss á CCP kann að lækka um allt að 200 milljónir dollara, jafnvirði um 27 milljarða króna frá því sem vonast var til í upphafi, ef viðunandi árangur næst ekki í rekstri félagsins á þessu ári. Þegar liggur fyrir að helmingur upphæðarinnar verður ekki greidd út þar sem tap var á rekstri CCP í fyrra.

Þegar gengið var frá sölunni til Pearl Abyss í september 2018 átti kaupverðið mest að nema 425 milljónum dollara. 225 milljónir dollara voru greiddar út strax en afgangur kaupverðsins, 200 milljónir dollara, miðast við afkomu CCP árin 2019 og 2020, 100 milljónir dollara vegna hvers árs um sig. Í nýbirtum ársreikningi Pearl Abyss Iceland ehf., móðurfélags CCP, fyrir árið 2019 segir að ekki sé „gert ráð fyrir að hagnaðarhlutdeild falli til greiðslu árið 2021 vegna ársins 2020“. 

Þegar kaupin áttu sér stað árið 2018 var útgáfa EVE Online í Kína og útgáfa farsímaleiksins EVE Echoes talin forsenda þess að afkomumarkmiðin næðust. Tafir urðu á leyfisveitingum í Kína og í þróun á farsímaleiknum EVE Echoes sem varð til þess að markmiðið náðist ekki í fyrra. Ekki er þó útlokað að sá árangur náist í ár. EVE Online kom út í kínverskri útgáfu í apríl, eftir að leyfi til útgáfu leiksins fékkst í samvinnu við nýjan kínverskan samstarfsaðila CCP, leikjafyrirtækið NetEase. Þá er stefnt að útgáfu Eve Echos í ágúst.

Forsvarsmenn CCP segjast, í samtali við Viðskiptablaðið, ekki geta tjáð sig um stöðu árangurstengingarinnar vegna ársins 2020 þar sem Pearl Abyss sé skráð á markað. Hins vegar segja þeir að rekstur fyrirtækisins hafi gengið mjög vel að undanförnu og umtalsverður vöxtur sé nú hjá félaginu. CCP hefur af þessum sökum verið að fjölga starfsfólki og hyggst halda því áfram á næstu mánuðum.

Morgunblaðið greindi fyrst frá kaupunum í september 2018. Þar kom fram að Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, og tengdir aðilar ættu 43,42% hlut í CCP, New Enterprise Associates 23,11% og General Catalyst 21,3% og Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, 6,51%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér