*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Innlent 15. janúar 2018 16:45

Gætu orðið sjálfstæð sveitarfélög

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, segir að hverfi borgarinnar gætu orðið sjálfstæð sveitarfélög.

Ritstjórn
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, var til viðtals á Víglínunni á Stöð 2 um helgina. Þar ræddi hann um málefni Reykjavíkurborgar og leiðtogaprófkjör Sjálfstæðisflokksins en Guðlaugur sagði að ástandið í borginni væri ekki boðlegt og að ef þjónusta og rekstur færi ekki að batna gæti svo farið að hverfi borgarinnar lýstu yfir sjálfstæði.

„Við þekkjum fjármál borgarinnar, þau eru í rúst. Þegar borgarstjóri fer í hverfin að sýna þjónustukannanirnar, er hann hættur að sýna samanburðinn við önnur sveitafélög og sýnir bara samanburðinn milli hverfa,“ sagði Guðlaugur Þór og bætti svo við: „Ef menn fara ekki að skipta um kúrs og hér komi borgarstjórn sem sýnir meiri metnað og nái betri tökum á fjármálunum, veiti betri þjónustu og hætti að fullnýta hvern einasta skattstofn, þá mun bara koma alvöru umræða um sjálfstæði þessara hverfa.“

Í umfjöllun Eyjunnar um málið er haft eftir Trausta Fannari Valssyni dósents í stjórnsýslurétti við Háskóla Íslands að lagabreytingu þyrfti til að skipta Reykjavík upp í fleiri og minni sveitarfélög. Að fyrir liggi heimildir í lögum um sameiningar sveitarfélaga en ekki séu ákvæði um heimildir til að skipta þeim upp. Það hafi þó verið gert áður þótt hann myndi ekki dæmi um það í svipinn.