Fari svo að Sjúkrahúsið á Akureyri hljóti alþjóðlega ISO gæðavottun á starfsemi sinni gæti það orðið til þess að það geti selt þjónustu sína á samkeppnismarkaði, til erlendra einstaklinga, tryggingafélaga eða almannatryggingakerfa.

Með öðrum orðum kynni að koma upp sú staða að Sjúkrahúsið á Akureyri væri í aðstöðu til að flytja út þjónustu sína, til dæmis til breskra eða þýskra kaupenda. Um þessar mundir stendur yfir ferli á sjúkrahúsinu sem miðar að því að það uppfylli kröfur sem al- þjóðlegu gæðavottunarfyrirtækin DNV GL og JCI setja fyrir vottun. Fyrsta úttekt í ferlinu var gerð í fyrra og ráðgert er að ferlinu verði að mestu lokið árið 2018. Ferlið gengur undir nafninu Gæðingurinn og er að frumkvæði stjórnenda á sjúkrahúsinu.

Bætt nýting á fjárfestingu og starfsfólki

Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, tekur fram að gæðavottunin sé ekki föst í hendi, og að engar formlegar samningaviðræður séu hafnar um útflutning á þjónustu sjúkrahússins. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að við tökum eitt skref í einu og förum ekki fram úr okkur. Við erum fyrst og fremst að hugsa að þetta sé til að bæta þjónustuna fyrir þá sjúklinga sem eru fyrir hjá okkur, en þetta gæti fylgt líka,“ segir hann.

Sigurður segir að mögulegt sé að ná fram bættri nýtingu á fjárfestingu í búnaði, fasteignum og ef til vill starfsfólki ef sjúkrahúsið gæti nýtt aðstöðu sína betur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .