Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, útilokar ekki að sjóðurinn selji hluta af eignasafni sínu til að grynnka á skuldastöðu sjóðsins. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Vandi Íbúðalánasjóðs er mikill og ef Arion banki gæti komið að því að leysa úr þeim vanda, meðal annars með því að kaupa eitthvað af eignasafni Íbúðalánasjóð þá væri það bara skoðað,“ segir Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka um málið.

Ríkisábyrgð stendur í ráðherra

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 var greint frá því að Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, teldi það ekki koma til greina að selja hluta af eignasafni Íbúðalánasjóðs á meðan ríkisábyrgð væri á skuldum hans.

„Mikilvægt er að árétta að Íbúðalánsjóður nýtur fullrar ríkisábyrgðar. Það liggur ljóst fyrir að skilmálum skuldabréfa verður ekki breytt nema með samkomulagi við eigendur bréfanna," sagði í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði og velferðarráðuneyti þann 30. maí 2013.

Daniel Isebarn Ágústsson hrl. var inntur eftir svörum við því hvort öruggt væri að ríkisábyrgð hvíldi á skuldbindingum ríkissjóðs. Hann kvað svo ekki vera og að raunar væri það nokkuð ólíklegt, enda væri engin lagaheimild fyrir því að Íbúðalánasjóður myndi skuldbinda íslenska ríkið. Í ljósi þess væri ekki hægt að tala um að ríkisábyrgð hvíldi á skuldum Íbúðalánasjóðs þrátt fyrir að hann væri fjármagnaður með framlögum úr ríkissjóði, enda áskilið í 40. gr. stjórnarskrár að lagaheimild þurfi til að stofna til ríkisábyrgðar.