Mikil óvissa ríki enn um stöðu og afkomu Íbúðalánsjóðs á næstu árum þrátt fyrir að ríkissjóður hafi stutt við sjóðinn í gegnum tíðina. Í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabankinn gaf út í morgun segir að rekstur sjóðsins sé ekki sjálfbær og muni afkoma hans verða neikvæð á næstu árum. Þá kemur fram í ritinu að verði breytingar á markaði sem feli m.a. í sér aukna samkeppni og lækkun útlánsvaxta þá geti uppgreiðslur lána sjóðsins valdið því að hann tapi frá 20 til 40 milljörðum króna.

Í ritinu segir:

„Uppgreiðslur þyrftu þó að aukast verulega frá því sem þær hafa verið að undanförnu til þess að svo mikið tap komi fram. Rekstur sjóðsins er ekki sjálfbær og að öðru óbreyttu mun rekstrarafkoma hans vera neikvæð á næstu árum. Hugsanlegt viðbótartap vegna vanskila og fullnustu gæti numið rúmum 20 ma.kr. Mikilvægt er að Íbúðalánasjóður nái að endurskipuleggja skuldir viðskiptavina sinna sem leiði til minni vanskila og að rekstur sjóðsins miðað við framtíðarhlutverk hans verði arðbær.“