Íslensku bankarnir Arion banki og Íslandsbanki lánuðu norska skipafélaginu Havila jafnvirði 5,7 milljarða króna, Íslandsbanki með þátttöku í sambankaláni í árslok 2014 en Arion banki lánaði félaginu fjóra milljarða um hálfu ári síðar. Þetta kemur fram í frétt DV .

Félagið rekur olíuþjónustuskipaflota, og hefur það farið illa út úr mikilli lækkun á olíuverði í heiminum, en fatið af Norðursjávarolíu kostaði um 110 Bandaríkjadali þegar Íslandsbanki lánaði sína um 1,7 milljarða en í dag er það á um 44 dali.

Gjaldþrot blasir við vegna höfnunar kröfuhafa

Segja stjórnendur félagsins nú að gjaldþrot blasi við félaginu eftir að hópur kröfuhafa hafnaði tillögu um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins.

Hafði Arion banki samþykkt tillöguna sem fól í sér skuldalækkun og breytingu á kröfum lánardrottna í hlutafé.

Samþykktu 15% endurheimtur lána

„Það liggja fyrir drög að samkomulagi sem við höfum stutt sem kveða á um 15 prósenta endurheimtur auk kaupréttar á hlutafé,“ segir Haraldur Guðni Eiðsson upplýsingafulltrúi Arion banka í samtali við DV.

„Maður veit náttúrulega ekki í dag hverju það getur skilað þegar fram líða stundir.“

Afborganir lána ættu að lækka úr 3,2 milljörðum í 67 milljónir norskra króna

Við endurskipulagninguna áttu afborganir af lánum félagsins að lækka úr 3,2 milljörðum norskra króna, eða rétt um 43 milljörðum íslenskra króna, í 67 milljónir norskra króna.

Áttu hreinar skuldir félagsins að lækka um 1,6 milljarða norskra króna sem er jafnvirði um 21 milljarðar íslenskra króna.

Skuldir breytast í eignarhluti

Eigendur félagsins áttu í staðinn að leggja félaginu til aukið hlutafé auk þess að hluti skuldanna myndi breytast í eignarhluti í félaginu. Jafnframt átti að selja hluta skipaflotans.

Nú stefnir hins vegar í að ekki geti orðið að endurskipulagningunni því hópur skuldabréfaeigenda, sem eiga kröfur sem nema um 500 milljónum norksra króna, eða um 6,7 milljörðum íslenskra króna, hefur hafnað tilboðinu.

Hafa þeir lagt fram aðra og breytta áætlun sem felst í að kröfur þeirra breytist í hlutafé sem nemi meirihlutaeign í félaginu.