Þýski bifreiðaframleiðandinn Volkswagen gæti þurft að kaupa 115 þúsund bifreiðar til baka af viðskiptavinum sínum, ef svo fer í samningaviðræðum við bandaríska saksóknara. Sagt er frá þessu á Reuters .

Ekki hefur verið staðfest hvort endurkaupaáætlunin sé hluti af samningum félagsins við bandarísk yfirvöld, en vonast er til að niðurstaða náist í viðræðum aðilanna brátt.

Framleiðandinn gæti þá einnig þurft að bjóða þeim sem endurkaupa er þörf af nýjan bíl á afsláttarverði, svindlbúnaðarlausan.

Allt í allt munu tæplega 500 þúsund bifreiðar þurfa að fara í skoðun og breytingar til þess að láta fjarlægja búnaðinn sem hannaður var til að gabba skoðunarfulltrúa sem eftirlit hafa með útblástursmagni bifreiða.

Viðskiptablaðið hefur áður fjallað ítarlega um svindlbúnað Volkswagen og málaferla sem af honum standa.