Fyrr í mánuðinum greindi Viðskiptablaðið frá rannsóknum Evrópusambandsins á skattamálum Apple Inc. Yfirvaldið sakar tæknirisann um skattaleg undanskot, og hafa stjórnmálamenn og eftirlitsaðilar nú verið að hugsa hverskonar reikning þeir ættu að senda fyrirtækinu.

Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur meðal annars gagnrýnt sambandið, en sú gagnrýni hefur borið litlan árangur. Samkvæmt heimildum Reuters fréttaveitunnar gæti reikningurinn numið allt að milljarði evra.

Talsmenn Apple neita öllum ásökunum og þykir ýmsum Evrópusambandið ganga full harkalega í málin. Stjórnmálamenn í Bandaríkjunum hafa til að mynda velt því fyrir sér hvort að Evrópusambandið sé ekki hreinlega að brjóta á Írum með því að vaða yfir þeirra skattalög og skipa þeim fyrir.

Samkvæmt frétt á vef Reuters, hafa eftirlitsaðilar í Brussel ekki viljað tjá sig um málið að svo stöddu.