Ríkisstjórn Bretlands kannar það nú að yfirgefa innri markað Evrópu fyrir fullt og allt. Þetta kemur fram á vef The Telegraph. Yfirvöld í Bretlandi hafa nú leitað ráða hjá þekktum aðilum í fjármálaheiminum, til þess að móta stefnu sína fyrir útgöngu úr ESB.

Ráðuneyti og stofnanir hafa fundað saman til þess að meta virði og mikilvægi markaðsins. Útganga Breta gæti þýtt að breskir bankar missi starfsleyfi í löndum innan evrópska efnahagssvæðisins. Hver banki gæti þurft að sækja um sérstök leyfi í hverju landi fyrir sig. Kostnaður bankanna gæti þá aukist umtalsvert, sem myndi þýða að þeir yrðu minna samkeppnishæfir. Einnig gætu þeir þurft að segja upp störfum í löndum, sem veita þeim ekki leyfi til bankareksturs.

Stórir bankar á Bretlandseyjum hafa ítrekað gefið það í skyn að þeir vilji halda aðgengi að innri markaðnum. Bankaráðið hefur þó lýst því yfir æskilegt gæti verið að aðskilja sig alveg frá innri markaðnum, til þess að auka svigrúm í lagasetningu fjármálafyrirtækja. Slík þróun myndi þá að öllum líkindum leiða til þess að London yrði stærsta aflandseyja heimsins.

Stjórnmálamenn í landinu eru afar ósammála um framvindu mála. Nýja ríkisstjórnin vill meta allan fórnarkostnað og setja saman skýra áætlun áður en gengið er að samningaborðum Evrópusambandsins.