„Í Noregi eiga menn að vera búnir að skila ársreikningi fyrir fyrsta ágúst og í Danmörku er það innan fimm mánaða frá lokum reikningsárs,“ segir Skúli Jónsson, sviðsstjóri skráasviðs hjá Ríkisskattstjóra, um samanburð á lögum um reikningsskil hér og í nágrannalöndunum. Tímaramminn þar er því þrengri en hér á landi en hér er frestur til 1. september. Vanræki íslenskt félag að skila ársreikningi má leggja á sekt sem nemur allt að 500.000 krónum og rennur í ríkissjóð.

„Í Noregi koma til sektir fyrir þau fyrirtæki sem ekki skila á réttum tíma en standa þó ekki lengur en í 26 vikur. Á því tímabili fer sektarfjárhæðin smám saman hækkandi og sé hún ekki greidd innan þriggja vikna þá fellur hún á stjórnarmennina sjálfa. Að sex mánuðum liðnum er svo gefin lokaviðvörun og sé ekkert gert þá getur ársreikningsskráin sent málið í skiptarétt og er þá félaginu skipt upp eins og um gjaldþrot væri að ræða,“ segir Skúli.

Í Danmörku er enn harðar tekið á þeim sem ekki skila ársreikningum og leggst fjársektin þá beint á stjórnarmenn fyrirtækisins. Þeir hafa þrjá mánuði til að bregðast við áður en lokaviðvörun er gefin og getur skráin þá, líkt og í Noregi, gripið til þess ráðs að leysa félagið upp líkt og það sé gjaldþrota, án frekari fyrirvara.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.