Ísland tekur nú þátt í Eurovision í 30. skipti. Í kvöld er það Svala Björgvinsdóttir sem stígur á svið í kvöld fyrir hönd Íslands og flytur lagið Paper. Margir Íslendingar þrá það eflaust heitast að sigra keppnina. En eins og leiðinlegum hagfræðingum er einum lagið, þá veltir Greiningardeild Arion banka upp spurningunni: „Viljum við raunverulega vinna Eurovision?“

Er það þess virði?

„Flest lönd sem hafa unnið, og þar af leiðandi haldið keppnina árið eftir, hafa tapað á því…peningalega. Svíþjóð er undantekningin, en í fyrra kom keppnin út í hagnaði, sem er sér í lagi óvanalegt. Þrátt fyrir að ekki sé ráðist í stórkostlegar framkvæmdir, eins í tilfelli Baku og Kaupmannahafnar þar sem tónleikahallir voru reistar sérstaklega fyrir keppnina, kostar skildinginn að vera gestgjafi. Oftar en ekki duga þær tekjur sem falla til, s.s. frá ferðamönnum er koma fyrir keppnina og eyða í gistingu, afþreyingu, mat o.s.frv., ekki fyrir kostnaðinum og þarf þá einhvern veginn að brúa bilið,“ kemur fram í greiningu Arion banka.

Kostnaðurinn við að halda Eurovision er mjög hár og getur hlaupið á milljörðum króna. Áætlað er að keppnin í ár muni kosta Úkraínumenn um 29 milljónir evra, eða tæpa 3,4 milljarða íslenskra króna, sem er talsvert meira en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir. Að sögn Greiningardeildarinnar er erfitt er að áætla hver kostnaður Íslendinga yrði ef keppnin yrði haldin hér á landi. „Segjum sem svo að kostnaður við keppnishald yrði jafn meðalkostnaði síðustu tíu ára, eða rúmir fjórir milljarðar. Þannig er óbeint gert ráð fyrir því að ekki þurfi að ráðast í stórkostlegar framkvæmdir, s.s. að byggja tónleikahöll, heldur verði þeir innviðir sem fyrir eru nýttir,“ segir í greiningunni.

Greiningardeildin fer svo í það mikla verkefni að upplista hvað er hægt að gera annað við ríflega 4 milljarða íslenskra króna :

  • Byggt 143 - 80 fermetra íbúðir
  • Rekið Landspítalann í 25 daga
  • Borgað 777 grunnskólakennurum árslaun
  • Keypt 1.847 nýja Toyota Yaris
  • Keypt 39,231 iPhone 7
  • Framleitt 21 íslenska kvikmynd
  • Rekið 3 Sinfoníuhljómsveitir í eitt ár
  • Haldið 460 jólatónleika

Við erum jafn leiðinleg

Greiningadeildinni til varnar eru þau ekki þau einu sem eru svo rúðustrikuð að þau hafa farið yfir kostnaðinn við að halda Eurovision, en það hefur Viðskiptablaðið einnig gert.

„Nokkrir breskir hagfræðingar tóku sig nýverið til og reiknuðu út hversu miklum fjármunum síðustu fjórir gestgjafar eyddu í hátíðarhöldin og var það niðurstaða þeirra að borgirnar hefðu samtals eytt um 129 milljónum punda eða sem nemur tæpum 18,5 milljörðum íslenskra króna á núvirði,“ segir meðal annars í greiningu blaðsins.