Áhrifa af uppbyggingu á Hörpureitum 1 og 2 við Hafnartorg í Reykjavík á tekjur Regins mun í fyrsta lagi gæta á fjórða ársfjórðung 2018, þegar rými Regins verða komin í fulla notkun. Áætlað er að áhrif á EBITDA félagsins verði um 400-460 milljónir króna til hækkunar á ársgrundvelli. Kemur þetta fram í tilkynningu Regins til kauphallarinnar.

Helgi S. Gunnarsson segir í samtali við Viðskiptablaðið að gríðarleg eftirspun sé eftir verslanarými. „Við gætum leigt þetta allt út á morgun, en við erum að velja inn leigutaka núna,“ segir hann.

Um mitt ár 2014 tilkynnti Reginn um undirritun kaupsamnings vegna hluta Hörpureita 1 og 2 við Austurbakka 2 í Reykjavík vegna 8.000 fermetra útleigurýmis staðsett á 1. og 2. hæð bygginganna. Markmið kaupanna er m.a. að tengja starfsemi, rekstur og markaðsstarf Smáralindar við þennan nýja miðbæjarkjarna.

Tilkynnt var um undirritun leigusamnings Regins við H&M þann 8. júlí sl. og verður sú verslun akkeri í þessum kjarna. Verslun H&M mun taka um þriðjung verslanafermetra sem eru í einingunni. Í tilkynningunni segir að nú sé verkefnið komið á þann stað að umfang, tímasetningar og fjárhagslegar forsendur séu betur kunnar.

Nú þegar leigusamningur um rúmlega þriðjung rýmis liggur fyrir hefur félagið endurskoðað áætlanir sínar um heildarfjárfestingu í Hafnartorgi. Fjárfestingaráætlun hljóðar upp á 5.600 milljónir króna eða um 620 þúsund krónur á hvern fermetra, sem felur í sér kaupverð, fjármagnskostnað, umsjón, hönnun, og aðlögun leigurýma. Innifalið í þeirri fjárfestingu er stækkun á eignarhluta Regins úr 8.000 fermetrum í tæplega 9.000 fermetra með samsvarandi fjölgun tekjugefandi rýma.

Í viðskiptaáætlun verkefnisins er gert ráð fyrir að leigutekjur á verslunarrýmum verði á bilinu 4.000 til 9.500 kr á fermetra, allt eftir eðli, staðsetningu og umfangi leigurýma.