Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti hugmyndir sínar um stofnun varasjóðs ríkisins gegn alvarlegum hagsveiflum á ársfundi Landsvirkjunar sem fram fór í fyrradag. Fram kom í máli hans að slíkur sjóður yrði settur á stofn með arðgreiðslum Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja í ríkiseigu, en fram hefur komið að væntur arður af starfsemi Landsvirkjunar kann árlega að nema 15 til 20 milljörðum króna á næstu árum.

„Þetta er fyrst og fremst hugmynd sem ég vil leita samstöðu um. Það er ekkert því til fyrirstöðu að við förum strax í að útfæra hana með því að setja lagaumgjörð um stofnun sjóðsins. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki enn útfært hugmyndina í neinum smáatriðum er sú að svona hugmyndir lifa ekki til langs tíma nema það sé breið samstaða um hana frá upphafi. Þess vegna finnst mér rétt að byrja á því að skoða hvort við getum verið sammála um að þetta sé skynsamlegt,“ segir Bjarni í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir hugmyndina fela í sér langtímahugsun og sjóður sem þessi verði að geta lifað stefnubreytingar í ríkisstjórn, pólitískar áherslubreytingar og ríkisstjórnarskipti. „Honum er ætlað að lifa miklu lengur en einstakar ríkisstjórnir. Það er einungis þannig sem menn geta byggt upp raunverulegan varasjóð sem hefur þýðingu. Þetta geta verið mjög háar tölur. Á tíu árum, ef menn falla ekki í þá freistni að fara út af sporinu, geta 20 milljarðar á ári safnast í 200 milljarða varasjóð. Menn eiga ekki að hugsa þetta í fimm eða sjö árum, heldur frekar áratugum,“ segir Bjarni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .