*

sunnudagur, 25. ágúst 2019
Innlent 19. september 2013 20:11

Gáfu öllum þingmönnum bók um fjármálalæsi

Inga Lára Gylfadóttir skrifaði bók um fjármálalæsi eftir nám í hagfræði. Á sama tíma vann hún fyrir sér sem flugmaður.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
Aðsend mynd

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, tók í dag við glænýjum bókum frá Stofnun um fjármálalæsi. Bókin heitir „Auður – hagfræði fyrir ísenska þjóð“ og fær hver einasti þingmaður eintak af henni. „Bókin kemur sér vel nú þegar fjárlagafrumvarpið er að koma fram. Ég hef haft aðstöðu til að glugga í bókina og hún er fróðleg, vel unnin og varpar ljósi á efnahagsumræðuna sem oft getur verið flókin,“ er haft eftir Einari í tilkynningu frá Stofnun um fjármálalæsi.

Höfundur bókarinnar er Inga Lára Gylfadóttir, flugmaður hjá Icelandair. Samhliða starfi sínu í háloftunum lauk hún B.S. námi í Hagfræðideild Háskóla Íslands vorið 2010. Fljótlega eftir að hún hóf hagfræðinámið áttaði hún sig á því hversu litla þekkingu hún hafði í raun til að taka ákvarðanir sem allir standa frammi fyrir einhvern tímann á lífsleiðinni, um íbúðakaup, fjárfestingar, sparnað og fleira.

Hagfræði fyrir almenning

Bókin „Auður – hagfræði fyrir ísenska þjóð“ er hugsuð fyrir almenning og er grunnrit í hagfræði og efnahagsmálum. Hún er á mannamáli og á erindi við alla þá sem vilja öðlast dýpri skilning á áhrifum hagkerfisins á eigin fjármál. Stofnun um fjármálalæsi bendir á að Alþingismenn komi úr ólíkum áttum og með mismunandi bakgrunn. Ekki sé sjálfgefið að þeir séu víðlesnir í hagfræði. Af þeim sökum þyki kjörið að færa alþingismönnum bókina.