Lögmannsstofan LEX hefur gefið út 70 síðna leiðarvísi fyrir ferðaþjónustuna, en þar gefur að líta yfirlit um þau lögfræðilegu atriði sem ber að huga að við stofnun og rekstur ferðaþjónustufyrirtækja.

LEX hefur látið prenta 2.000 eintök af ritinu og er því dreift ókeypis til aðila í ferðaþjónustunni auk þess sem eintök liggja frammi hjá opinberum stofnunum og víðar. Einnig er hægt að panta prentuð eintök af ritinu. Þá er leiðarvísirinn aðgengilegur á vefsíðu LEX svo og á vefsíðu SAF, Samtaka ferðaþjónustunnar.

Í tilkynningu frá LEX segir að fjöldi sérfræðinga lögmannsstofunnar hafi komið að gerð leiðarvísisins, en Helgi Jóhannesson lögmaður hjá LEX ritstýrði honum. Helgi hefur lokið prófi í gönguleiðsögn frá Leiðsöguskólanum og átti hann frumkvæðið að því að LEX réðst í útgáfuna.

„Í framhaldi af náminu í Leiðsöguskólanum fékk ég áhuga á að leggja mína lagalegu þekkingu af mörkum með því að taka saman leiðarvísi um laga- og regluumhverfi ferðaþjónustunnar. Ég lagði þessa hugmynd fyrir félaga mína hjá LEX og úr varð að við ákváðum að leggja vinnu og fjármuni í þennan leiðarvísi og gefa ferðaþjónustunni afraksturinn,“ segir Helgi um aðdragandann að útgáfu ritsins.