Gagarín hefur verið ráðið til að hanna og þróa gagnvirk sýningaratriði fyrir olíusýningu sem sett verður upp í Tæknisafninu í Oslo, sem heitir á norska vísu Norsk Teknisk Museum, í samvinnu við sænska hönnunarfyrirtækið CoDesign. Gagarín hefur á undanförnum árum sérhæft sig í hönnun fyrir gagnvirka miðla með það að markmiði að gera þátttakandann virkan í upplifuninni.

Sýningin fjallar um norska olíuiðnaðinn og áhrif hans á samfélagið út frá mismunandi sjónarhornum t.d. fjárhags-, umhverfis, vísinda og samfélagslegum afleiðingum. Opnun sýningarinnar er áætluð árið 2014.

Þetta er eitt af fjölmörgum verkefnum sem Gagarín hefur komið að í Noregi en meðal annarra verka má nefna sjófuglasýningu á eyjunni Værlandet, villihreindýrasýningu í Harðangursfirði og jöklasýningu í Jostedal þjóðgarðinum. Fyrirtækið vinnur auk þess að þrem innsetningum fyrir Mannréttasafnið í Kanada sem fyrirhugað er að opna á næsta ári auk annarra sýninga.