Varla þarf að hafa mörg orð um sókn félagsmiðla á undanförnum árum, hvort heldur er Facebook, Twitter, LinkedIn, Snapchat eða hvað annað. Flestir átta sig á hinu félagslega notagildi þeirra, en menn eru ekki á einu máli um hversu nytsamlegir þeir eru fyrir atvinnulífið, þó flest fyrirtæki reyni að vera með einhverju lífsmarki á þeim.

Þegar kemur að viðveru starfsmanna þykir þó sjálfsagt mörgum vinnuveitendum að of miklum tíma sé sóað á félagsmiðlum. Sumir vinnustaðir loka jafnvel fyrir netaðgang að þeim nema fyrir valda starfsmenn, sem þangað eiga sérstakt erindi.

Samkvæmt rannsókn vestanhafs er það ekki að tilefnislausu. Þeir geta nýst vinnustöðum vel, en fyrst og fremst virðast þeir þó vera truflun frá vinnu.