Gagnaeyðing ehf. vann í gær mál fyrir Hæstarétti vegna ólögmætrar notkunar fyrirtækis á Akureyri á heitinu Gagnaeyðing Norðurlands. Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra frá því í fyrra þessa efnis. Kemur þetta fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þar segir að í dómi héraðsdóms komi fram að Gagnaeyðing ehf. hafi sannarlega notað orðið í heiti sínu og kynningum á fyrirtækinu í meira en tuttugu ár. Orðið hafi ekki verið notað í íslensku ritmáli fyrr en Gagnaeyðing ehf. hafi byrjað að nota það.

Þá hafi Gagnaeyðing ehf. frá árinu 2006 eitt íslenskra fyrirtækja haft sérstaka vottun alþjóðlegra samtaka fyrirtækja sem bjóða upp á örugga eyðingu trúnaðargagna. Því hafi notkun heitisins Gagnaeyðing Norðurlands brotið gegn vörumerkjarétti Gagnaeyðingar ehf.

Eiganda Gagnaeyðingar Norðurlands var bæði fyrir héraðsdómi og Hæstarétti gert að greiða Gagnaeyðingu ehf. bætur vegna málskostnaðar.