Um 13,4 milljónum skjala, að mestu frá fjármálafyrirtækinu Appleby, staðsett á Bermúda eyju, sem hefur hjálpað einstaklingum að setja upp fjármálafyrirtæki í lágskattalöndum, eru í Paradísarskjölunum sem lekið var í gær. Einnig eru í upplýsingunum fyrirtækjaskrár frá 19 mismunandi sjálfstjórnarsvæðum með eigin skattastefnu.

Sýna upplýsingarnar, sem þýska blaðið Süddeutsche Zeitung komst yfir, að ýmsir áhrifamenn í stjórnmálum og fjármálum í heiminum hafa nýtt hagstæða skattalöggjöf í þessum löndum til að halda eftir meira af afrakstri fjárfestinga sinna. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá eru þónokkrir Íslendingar meðal þeirra sem finnast í skjölunum.

En einnig sýna þau að einstaklingar í áhrifastöðum hafa notað fyrirtæki í löndunum til að breiða yfir óæskileg tengsl við erlendar ríkisstjórnir, sem og til að komast fram hjá reglum um fjárfestingar sínar meðan í áhrifastöðunum.

Tengsl ráðherra Trump við skattaskjól

Meðal þeirra sem fjallað hefur verið um í kjölfar lekans eru tengsl Wilbur Ross, viðskiptaráðherra í stjórn Donald Trump Bandaríkjaforseta við fyrirtæki í nánum tengslum við rússnesk stjórnvöld.

Að því er BBC greinir frá hjálpaði Ross Donald Trump frá því að lenda í gjaldþroti árið 1990, en hann hefur haldið í gegnum aflandsfyrirtæki hlut í fyrirtæki sem hagnast um milljónir Bandaríkjadala á því að flytja olíu og gas fyrir rússneskt orkufyrirtæki.

Meðal hluthafa í orkufyrirtækinu er tengdasonur Vladimír Pútíns forseta Rússlands og tveir aðilar sem þurfa að sæta bandarískum viðskiptaþvingunum.

Einnig hefur verið fjallað um sjóði á vegum bresku krúnunnar, fjármögnun breska knattspyrnuliðsins Everton FC, mögulega aðkomu Lord Ashcroft, fyrrum varastjórnarformanns breska Íhaldsflokksins, að eigin fjárfestingum í trássi við reglur, eignir aðstoðarmanna fyrrum forsætisráðherra Kanada sem hafði talað gegn skattaskjólum, og fleiri sögur.