Fyrirtækið DataMarket hefur hleypt af stokkunum gagnatorgi sínu á vefslóðinni DataMarket.com. Gagnatorgið tekur saman töluleg gögn frá ýmsum opinberum aðilum og einkafyrirtækjum og gerir þau aðgengileg á einum stað með samræmdum eiginleikum, svo sem leitarmöguleikum, samanburði, tengingum við fréttaefni og aðra viðburði, og niðurhali gagna til dæmis til notkunar í Excel.

Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er m.a. að finna meira en 2.500 gagnasett frá Hagstofu Íslands, Seðlabanka Íslands, Vinnumálastofnun, Fasteignaskrá, Orkustofnun og Ferðamálastofu. Að auki eru þar gögn frá Ríkislögreglustjóra og töluleg gögn úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Öll þessi gögn eru nú aðgengileg netnotendum án endurgjalds á gagnatorginu DataMarket.

Sem dæmi um hin margvíslegu gögn sem er að finna á torginu má nefna: hitastig á Stykkishólmi, barnsfæðingar á mánuði frá 1853, atvinnuleysi iðnaðarmanna, raforkuframleiðslu með jarðvarma, útbreiðslu DVD spilara og kílóverð á súpukjöti svo fátt eitt sé nefnt.

Gögnin spanna nærri 450 ára tímabil, söguleg gögn allt frá því um aldamótin 1600 og spár sem ná fram til ársins 2050.