Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) hefur haft rekstur Gagnaveitu Reykjavíkur (GR) í sérstakri úttekt frá áramótum, á því hvort fyrirtækið starfi í samræmi við ákvörðun stofnunarinnar í árslok 2006.

PFS hefur allt rekstrarárið 2007 til athugunar, en rannsóknin er nú á lokastigi.

PFS mun á næstu dögum kynna GR frumdrög rannsóknarinnar, og opinberra niðurstaðna er að vænta innan fárra vikna.

Ef PFS kemst að þeirri niðurstöðu að GR þurfi frekar að laga sinn rekstur að fyrirmælum PFS frá því 2006, mun stofnunin beina stjórnvaldsfyrirmælum þess efnis að GR. Þó getur verið að samstaða náist og ekki þurfi að grípa til stjórnvaldsaðgerða gagnvart GR.

Rannsókn PFS snýr aðallega að veðsetningu eigna GR, lánaskilmálum og kjörum og hvort GR sé í raun og veru rekin sem sjálfstæð eining innan Orkuveitu Reykjavíkur, meðal annars með tilliti til kostnaðarskiptingar. Einnig hvort GR sé stætt á að nýta sér undanþáguheimildir í ársreikningalögum þegar fyrirtækinu var gert að skila reikningum í samræmi við meginreglur.

Mætti gera ríkari kröfur um upplýsingagjöf

GR skilgreinir sig sem einkahlutafélag, en bent hefur verið á að samkvæmt lögum um opinber hlutafélög eigi að birta samþykktir félags, árshluta- og samstæðureikninga á vefsíðu sinni. Þetta hefur GR ekki gert.

Björn Geirsson, forstöðumaður lögfræðideildar PFS, segir í samtali við Viðskiptablaðið að engar lagalegar forsendur séu fyrir því að gera ríkari kröfur til GR um upplýsingagjöf, vegna þeirrar staðreyndar að félagið er í opinberri eigu.

„Hins vegar er ekki óeðlilegt að gera ríkari kröfur til fyrirtækja í opinberri eigu um upplýsingagjöf. Slíkar konar kröfur má auðvitað gera gagnvart GR, þótt þær eigi sér ekki beina lagastoð.“